logo Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar

Fréttasafn

2015

september.

Hlégarður

25/09/2017

Á vorfundi Mosfellshrepps árið 1947 var tekin ákvörðun um byggingu samkomuhúss því húsnæðið sem áður var notað undir samkomur Mosfellinga þótti orðið allt of lítið og því var mikil þörf fyrir nýjan samastað.

Strax var ákveðið að leitað yrði eftir samvinnu við Kvenfélag Lágafellssóknar og Ungmennafélagið Aftureldingu og lögðu bæði félögin fé í húsið auk þess sem félagsmenn tóku þátt í byggingu hússins.

Arkitekt hússins var Gísli Halldórsson og skiptist húsið í nokkur rými og átti það að rúma 230 manns í sæti.

Við hátíðlega athöfn var svo nýtt félagsheimili Mosfellinga vígt 17. mars 1951. Við vígsluna hélt Halldór Laxness ræðu og sagði meðal annars: „Mér þykir viðkunnanlegt nafnið sem þetta félagshús hefur hlotið, það mætti verða sannnefni á tvennan hátt, í fyrsta lagi vegna þess að húsið er eftir smekk nútímans reist niðrí dæld eða lág, í hléi fyrir mesta vindinum, eða að minsta kosti í meira hléi en ef það hefði verið sett uppá hól einsog fornmenn voru vanir að setja hús sín; og í öðru lagi á slíkt hús sem þetta að vera sveitúngum skjól og afdrep sem þeir leiti til úr stormviðrum hversdagslífsins og finni skemmtun og mentun: Hlégarður.“ (Bjarki Bjarnarson og Magnús Guðmundsson, 2005, bls. 367).

Í Hlégarði hefur verið rekin ýmis starfsemi t.a.m var á fyrstu árum Hlégarðs rekin heimsvist fyrir börn sem bjuggu hvað lengst frá Brúarlandsskóla. Einnig fengu ungverskir flóttamenn afdrep í Hlégarði áramótin 1956-1957 er þeir voru nýkomnir til landsins. Ungmennafélagið og síðar Leikfélag Mosfellssveitar var með aðstöðu í húsinu og setti upp fjölda leiksýninga. Mosfellshreppur og síðar Mosfellsbær var með skrifstofur sínar á efrihæð í austurhluta Hlégarðs. Eftir að skrifstofurnar fluttu varð efri hæðin síðar afdrep fyrir félög s.s. ITC Korpa, Famos (félagsstarf eldri borgara), Kvenfélag Lágafellssóknar, Mosverjar (skátafélag Mosfellsbæjar), Stamos (Starfsmannafélag Mosfellsbæjar) og fleiri félög.

Þá hafa verið haldin sveitaböll, hjónaböll, jólatrésskemmtanir fyrir börn, leiksýningar, tónleikar, ýmiskonar námskeið, leikfimiæfingar, hestakaffi, kaffi fyrir eldri borgara, afmælisveislur, kosningafundir, bíósýningar og fleiri viðburðir sem hafa skemmt Mosfellingum og gestum þeirra í gegnum árin.

Á myndinni má sjá austurhlið Hlégarðs eins og hún leit út árið 1957. Svalirnar eru löngu horfnar en nú stendur yfir mikil endurbygging á Hlégarði, bæði á ytra og innra byrgði. Rekstraraðili Hlégarðs síðustu 25 ára, Vignir Kristjánsson, hefur nú lokið störfum í húsinu. Nýr tími er að renna upp fyrir samkomustað Mosfellinga.

Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira